[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


29.7.05
Af efnislegri þrahyggju II - SCHNURRBART UNGARISCH

Hér er rosa góð kaffilykt. Myndarlegur útlendingur með skegg gengur út úr 12 tónum. Ég er fyrir myndarlega útlendinga með skegg. Helst vildi ég safna þeim. Stundum safna þeir sér sjálfir, til dæmis hér, á heimasíðu Heimsmeistarakeppninnar í skeggi. Ég held með Marco ítalska. Hér má sjá vinningshafa í flokknum "Schnurrbart ungarisch" - Ungversk yfirvaraskegg í Schömberg 2001. Hér sé ég tvær dömur, eina í grænni dragt - og aðra við hliðina á henni, í nákvæmlega eins bleikri dragt, þær leiðast niður Skólavörðustíg. Þær eru ekki tvíburar. Ef ég væri ekki stelpa, þá væri ég mjög asnalegur strákur. Ég myndi standa í stanslausri tilraunastarfssemi með skeggið á mér, sem væri asnalegt því ég væri eflaust með óþéttan og viðvaningslegan skeggvöxt. Svo væri ég örugglega með axlabönd líka. Ég myndi vera með axlabönd ef það hentaði ekki kvenvaxtarlagi svona illa, Ég verð því í staðinn að vera með mittislinda, það er svo kvenlegt. Ég hlakka til að komast í sveitina mína á eftir. Það er föstudagur í mér.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 14:17



Af efnislegri þrahyggju

Hér fyrir utan gluggann minn á Skólavörðustíg ber maður kontrabassa inn í 12 tóna. Annar maður sem gekk framhjá varð hræddur við hund. Svo sá ég líka konu með bleikt hár, og konu í grænni dragt og íþróttaskóm. Hún er örugglega haldin sama veikleika og ég. Hún vorkennir örugglega ljótum fötum og klæðist þeim þess vegna. Einu sinni fann ég peysu uppi í sveit, hún var bleik og með ljótasta munstri sem er til í heiminum. Örugglega. Nú ætla ég að borða á Jómfrúnni.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 12:06



26.7.05
Froskar i maga

Daginn eftir að ég fékk úrið mitt hvíta, sem heldur að það sé vasaúr, en er í raun armbandsúr, hrökk það í sundur þegar ég djöflaðist með það í Kösureifi. Ég, þekkt að endemum fyrir ást á skyndilausnum, klambra því saman með vír og læt gott heita. Nokkrum mánuðum seinna gáfu svo vírarnir sig og úrinu var hent niður í tösku og hélt sig á botni hennar í nokkrar vikur - þangað til áðan, þegar ég dró það fram, sneri vírana aftur saman og setti úrið á mig. Það leið mínúta áður en ég reif það af mér, því mér leið ófrjálsri og heftri eins og ég væri í gapastokk. Svipuð líðan og mér hefur verið sagt að skyrát geti kallað fram; köfnunartilfinning og ógleði. Mér leið eins og þræl.

Svo ég og þeir sem mig umgangast verða að halda áfram að umbera skert tímaskyn mitt. Annars er ekkert að frétta nema þá að tilvonandi eiginmönnum mínum fjölgar óðum.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 16:07



8.7.05
Hun les grin

Nú rétt í þessu var ég að lesa á internetinu um mann sem hefur hitt Beck og talað við hann. Samtal þeirra var svona:

Dave: Ég skrifaði bók um morðóða stjörnu.
Beck: Kúl.

Þetta er mikil tilviljun, því Beck á einmitt afmæli í dag. Hann er 35 ára. En það er einmitt fyndið, því sem ég skrifa þetta er hitinn í borginni Bechar í Alsír einmitt 35 gráður á selsíus. Tilviljun! Einmitt! Tilviljun!

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 16:51

maystar maystar maystar designs | maystar designs |