[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


24.10.04
Nýr mælikvarði á eirðarleysi:

Ég borða appelsínubörk af eirðarleysi.

Í dag eignaðist ég reiknivélarhulstur, bútasaumað.

Hlustið á Megas: Orfeus og Evridís.

Mig langar í: Sjálfsævisögu Bob Dylan.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 18:42



22.10.04
Góði Guð

Núna aðfaranótt fimmtudags klukkan hálftvö um nóttina þegar ég fékk tilkynningu um að Blogger væri niðri, og í gærkvöldi klukkan ellefu þegar ég átti eftir að lesa danska skáldsögu um eiturlyfjamisnotkun og kynlíf og internetið hætti að virka... ja, þá varð mér hugsað til þín og mig langaði bara svona að segja þér að ég met þetta mikils og ætlaði eiginlega bara að biðja þig um að halda þessu áfram. Fínt að fá svona tákn frá þér, sko. Annað var það eiginlega ekki, takkbless amen.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 19:50



19.10.04
Ó, mig auma...

hversu maður eilíflega leyfir bjórsvolgrandi Jesúsum að koma sér úr jafnvægi...

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 01:16



12.10.04
Ný snilld

Ég fékk kápu og stígvél. Alveg eins og ég vildi. Ég er afar sátt núna; árshátíðarvika og yndislegar skreytingar í Cösu, kökur á hverjum degi þannig að maður þarf ekki að koma með nesti (einu minna stress að stressast yfir á morgnana). Ekki nógu sátt samt við veðrið og prófasýki og bíladellu foreldra minna. Ekki heldur við Guðmund Durt sem er búinn að eyðileggja hausthléið mitt með sögufyrirlestri.

Í mínu einum-of-hektíska daglega lífi er eitt sem ég þarf sjaldan að gera en upplifði samt í miklum mæli í dag. Það er að bíða. Ég fór á Borgarbókasafnið til að afla mér heimilda fyrir téðan fyrirlestur og þar var fólk með skegg sem lét mig bíða og bíða og bíða. Síðar um daginn gerði ég þau mistök að leyfa foreldrum mínum að keyra mig og sækja í píanótíma. Það kostaði mig samtals hálftímabið (Já, ég veit, ég er vanþakklátt ógeð). En ég tel mig hafa lært af þessari reynslu að það er ógeðslegt að láta alltaf bíða svona mikið eftir sér. Þannig að nei, ég vonast ekki til að bæta mig neitt næsta árið nema að þessu leyti.

Upp á síðkastið hef ég tekið eftir tvennu í sambandi við lyftur. Þær veita mér ákveðna öryggistilfinningu sem ég get ekki útskýrt. Svo finnst mér tíminn líða svo hægt inni í lyftum. Það get ég heldur ekki útskýrt. Ég stefni því að því á næstunni að gerast einsetukona í lyftu.

Svo ráðlegg ég mönnum að hrista rassinn við Sheik Yerbouti Franks Zappa. Og ef menn eru þreyttir á októbersíðkvöldum ráðlegg ég þeim af visku minni og manngæsku að láta það undir höfuð leggjast að læra stærðfræði, lesa Íslendinga þætti eða annað sem skynsamlegt gæti talist. Betra að svala margra daga uppsafnaðri löngun sinni til að horfa á Nightmare before Christmas.

Þessi ætti nú bara að gerast einsetukona í lyftunni í staðinn fyrir að standa fyrir framan hana með brjóstin út í loftið. Meiri kellingin!



|
sigrún ybbaði gogg klukkan 20:17



3.10.04
Sigrún, hvað háir þér mest í augnablikinu?

Það er hversu mikið ég á ólært.

Ég er að spá í að sleppa bara næstu viku. Held það væri alveg fínt.

Síðan má einhver senda mér ástarbréf. Ástarbréf eru að mínu mati afar vanmetin í nútímasamfélagi. Jájájá. Mig langar svo í ástarbréf að ef það sendir mér ekki einhver ástarbréf þá geri ég það sjálf. Og ekki viljum við það, onei.

Og að lokum: Hvar kaupir maður sjálfsaga, falleg stígvél og tvíhneppta jakka?

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 18:33



2.10.04
Ég er samt búin að borða fjóra hraunbúa...

Svona geta meinlegar innsláttarvillur gert mann að mannætu.

Eirðarleysi getur af sér blogg, mikið eirðarleysi getur af sér blogg sem einkennist af einhverju allt öðru en andagift.

Það er mjög skrýtin lykt heima hjá mér. Pabbi er að elda lambalæri sem hann hengdi sjálfur. Í tvo daga er semsagt búið að hanga nakið lambalæri á hanka í eldhúsinu. Pabbi er líka að elda rauðkál, það er sokkalykt af því. En þetta er allt í lagi, því þessi lífsreynsla gerir mér gott og þroskar mig sem manneskju.

Í gær réðst að mér manneskja með skott og klippti af mér allt hárið nema sumt. Svo nú er ég með sítt að framan, en mér skilst að það sé hið nýja sítt að aftan. Ekki mullet heldur... skullet?

Nú er ég búin að skrifa fullt af skemmtilegum lögum á mínídiska, þá ætla ég að fara í partí/orgíu/reif, eða rólegt teboð ef þú ert mamma hennar Hildar.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 20:07

maystar maystar maystar designs | maystar designs |