[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


25.9.04
Reif í skóinn

Í gær var gaman, ég dansaði mikið með góðu fólki. Salsa er þokkalega málið, mar.

Ég er haldin ritstíflu, það er vont þegar maður þarf að skrifa tvær ritgerðir og tvær hljómaraðir, og auk þess uppfylla kröfur æstra aðdáendaskaranna um meira blogg.

Æ, ég er leiðinleg núna. Lífið er alveg skemmtilegt, en ég er mjög leiðinleg og mygluð í sálinni. Best að taka til.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 17:06



5.9.04
Tossi og ógeð

Það er gaman í skólanum. Samt var frelsissviptingin í fyrstu frekar óþyrmileg, veðrið gott og ég átti erfitt að horfast í augu við að sumarið væri að verða búið. Enda var þetta fyrirtakssumar í alla staði. Fyrsti dagurinn var óhemjulengi að líða. En núna þegar ég er komin inn í rútínuna og allt helsta vesenið og stressið sem fylgir því að byrja í skólanum er að baki held ég bara að þetta verði helvíti gaman. Markmiðið er að sigrast á mínum óæðri manni og lenda ekki í sama tímahraks- og rónaskaparvítahringnum og á síðasta skólaári. En það er gaman í skólanum.

Það er gríðarleg útþrá farin að ásækja mig. Til þess að snúa hnífnum í sári mínu og annarra sem kunna að eiga við svipaðar kenndir að stríða ætla ég nú að birta myndasyrpu úr Möltuferð minni á dögunum.

Skottrotta í London
Þegar maður í London er mjög mikilvægt að vera kúl á svipinn.
Það er álíka mikilvægt þegar maður er kominn til Möltu og stendur fyrir framan fjólubláan pallbíl.
En þegar maður stendur fyrir framan Gamla Grjóna númer sextíu og átta, þá má maður vera algjört gimp.
Þarna höfðu varnir kastalans sem við bjuggum í brostið og sporðdrekaplága tekið að herja á okkur.
Þessi páfagaukur kunni að hjóla. Svona páfagauk þrái ég meira en flest annað.
Það er gaman að byggja sandkastala. Sérstaklega þegar hann er rammgert virki og maður er svona vel glereygður.
Þetta hefði getað verið mjög rómantískt - ef bróðir minn hefði ekki verið að frussa á bakið á mér meðan ég tók þessa mynd á siglingu um Hellisskútana bláu.
Þegar ég var að taka þessa mynd virðist konan sem stendur í skugga til hægri á myndinni hafa ákveðið að ég væri að ljósmynda hana sjálfa og stillt sér svona fallega upp. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en löngu síðar, en með þessu uppátæki sínu gæddi konan í slönguskinskjólnum miklu lífi það sem hefði getað verið dæmigerð útlandamynd að hætti mömmu, sem finnst ekki þess vert að taka mynd af neinu nema að minnsta kosti tveir fjölskyldumeðlimir stilli sér upp fyrir framan það. Kann ég slöngukonunni bestu þakkir fyrir.
Ég í kjól. Gaman að vera í kjól. Gaman að vera í útlöndum þar sem er fallegur sjór og fallegur himinn og fallegir kjólar.

Nú ætla ég að hætta að vera tossi og ógeð, góðar stundir, gott fólk.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 15:53

maystar maystar maystar designs | maystar designs |