[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


31.3.04
Seiseijú, mikil ósköp

Það var áhugavert að sjá í fréttunum áðan konu vera að kveina yfir því hvað hún væri með lág laun og hvað hún vildi mikið hafa mannsæmandi laun til að geta gert eitthvað annað en að vinna, borða og sofa. Á meðan á þessum kveinstöfum stóð var hún sýnd þar sem hún fór upp á kaffistofu og fékk sér sígarettu. Stundum er fólk svo skammsýnt.

Plús
Hvað snjórinn sem kyngir niður núna er fallegur ásýndar

Mínus
Hvað hann er ansvíti ópraktískur og almennt til trafala. Fer líka að koma apríl og svona, kann ekki alveg við þetta.

Plús
Að ég skuli vera þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga nóg af fötum

Mínus
Að þau skuli öll hafa safnast fyrir á rúminu mínu og valdi mér svefntruflunum

Plús
Minn glæsti hjólfákur, þarfasti þjónninn sem hefur síðasta árið komið mér hvert sem er til sjávar og sveita. Honum á ég líka að þakka mín kraftalegu tröllkonulæri.

Mínus
Að hann skuli vera að detta í sundur. Frambrettið hangir núna á bláþræði, nánar tiltekið fiskilínu.

Plús
Hvað mér líður á einhvern óskiljanlegan hátt alltaf vel eftir hljómfræðitíma - held þetta hafi eitthvað með létti að gera

Mínus
Hvað mér líður alltaf illa í tvo daga fyrir hljómfræðitíma því ég læri aldrei

Plús
Hinum gullnu dögum hljómsveitarinnar Funktional. Funktional er sennilega besta nafn á fönkhljómsveit sem ég hef nokkurn tímann fundið upp á.

Mínus
Að við skulum aldrei hafa æft. Græt það enn þann daginn í dag og freistast til að kenna svikula trymblinum Kolbeini um.

Já, gott fólk, svona er hægt að finna jákvæðar og neikvæðar hliðar á öllu, allt hefur sína kosti og galla sem þarf að vega og meta með tilliti til innri og ytri aðstæðna. Það verður ekki á allt kosið, það eru ekki alltaf jólin, það er margt í mörgu og margt mannanna bölið og misjafnt drukkið ölið. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, með sameinuðu átaki tókst okkur að útrýma áfengisdrykkju úr fermingarveislunum. Nei þýðir nei, nauðgun er glæpur; konurnar upp úr pottunum, frelsi jafnrétti bræðralag.

Nú þegar ofangreindu hefur verið komið á framfæri er þungu fargi af mér létt og ég get loksins farið að sofa. Í nótt ætla ég að gera tilraun, meira um hana síðar.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 00:02



29.3.04
Og það rignir hnífum

Myndir úr teiti aldarinnar á public.fotki.com/sigra - og fleiri á leiðinni, fylgist með. Annars lofa ég aðeins innblásnara bloggi á næstunni... fylgist með, já það er eins gott að þið fylgist með ræflarnir ykkar, annars drep ég ykkur öll.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 01:46



20.3.04
Þetta máttu ekki segja, elskan mín

Og þó, ætli ég nenni þessu ekki bara svei mér þá, það er svo gott veðrið.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 17:11



15.3.04
Stundum

er ég einhvern veginn ekki alveg "að nenna þessu" -þá á ég við svona almennt.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 00:32



11.3.04
Ryðrauður dauði

Hvað er eiginlega að gerast á íslenskum auglýsingastofum?

"Aloe Vera - Gefandi jógúrt"
Hvað í dauðanum er gefandi við jógúrt? Það eina sem gefur við þetta jógúrt er lifandi jógúrtgerlar sem gefa líf sitt - nema þeir haldi áfram að lifa í maganum á manni... ég þarf ekki að taka dæmið lengra, þetta á aldrei eftir að hvetja neinn til að borða þetta jógúrt, fyrir utan það að þetta er ömurlega hallærislegt.

"Brimborg - Öruggur staður til að vera á"
Þetta er bara bjánalegt.

"Þetta er þín hugmynd - Við hjálpum þér að láta hana gerast!"
Þetta er líka bara bjánalegt, fyrir utan að þetta er svo málfræðilega kolrangt... maður lætur hugmyndir ekkert gerast, maður hrindir þeim í framkvæmd, gerir þær að veruleika, hvað sem er annað en að láta þær bara gerast!



Svo er ég stundum svo fyndin að ég geng fram af sjálfri mér.
Margrét öskrar af efri hæðinni vegna þess að hún er eitthvað að reyna að láta renna í bað en kemur svo í staðinn af stað flóði í baðherberginu:
"Það er að leka úr!"
Þá svara ég, springandi úr þessum yndislega útúrsnúnings- og orðhengilshúmor sem einkennir fjölskylduna Birkihlíð 40:
"Haha, bara Dali-stemning hjá þér Margrét?"
Já, það er gaman að vera fyndin.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:06



PURVURT

Sem ég sit hérna við tölvuna er ég allt í einu svo ánægð. Þið getið haldið það sem þið viljið en ég hallast að því að þetta sé vegna þess að sólin skín af svo miklu offorsi á ilina á mér. Það er ofboðslega þægilegt. Svo er ég líka búin með alla fyrirlestrana mína nema rúllettu-dæmið, þar sem eru ekki gerðar kröfur til neins nema að ég bulli soldið. Hobbitapróf og tónlistarsöguritgerð að baki líka, þannig að þetta er ágætt. Hvað tekur við er svo allt annar handleggur. Það er allavega leikhús, ball og mitt eigið afmæli á döfinni, þannig að ég sé fram á ágætistíma. Jájá, þetta er ágætt.

Langar í svona peysu (og eiginlega allt gap-dótið, þetta er svo vorlegt og fjörlegt eitthvað alltsaman):


og háralitinn á þessari gellu:


Ég sagði frá því um daginn að ég væri að breytast í barbí. Til allrar hamingju hef ég ekki þurft að skipta brjóstahaldarasafninu mínu út fyrir stuðningslífstykki í skálastærð DD ennþá, en það er önnur og verri staða komin upp. Í einhverju hugsunarleysi (og án þess að mér hafi tekist að taka eftir því!) downloadaði ég Toxic með Britney Spears um daginn. Ég get svarið það upp á... eitthvað að ég man ekkert eftir því að hafa gert það. Er reyndar ekki búin að hlusta á það, ætla ekkert að fordæma þetta, en verð þó að segja að ég hefði aldrei trúað því upp á sjálfa mig að gera svona lagað. Kannski er þetta bara merki um víðsýni og þroska hjá mér. Held samt ekki.

Hinsvegar finnast mér miklar hetjur suðurríkjarokkbræðurnur Kings of Leon. Það er eitthvað við þá sem fékk mig, annars óhrifnæma og drumblynda manneskjuna til að hrista höfuðið og gleðjast í hjarta við að hlusta á þá -einkum og sér í lagi lagið "Genius". Snilldarlegt hreint, haha.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 17:53



8.3.04
Ég er tónlist

Ef það væri ekki svona vondur brandari myndi ég halda að þessi síða væri grín. Ég var eins og fyrri daginn að leita að heimildum um barokktónlist og rekst á þessa síðu, líst svona helvíti vel á slóðina. En neinei, þá kemur í ljós að þetta er bara allra versta eyðsla á vefslóð sem ég hef séð um dagana. Það er EKKERT á henni bitastætt. Samkvæmt henni voru þrír menn sem sömdu barokktónlist, Bach, Händel og Vivaldi. Og ekki er tónlistarsafnið sem er boðið upp til nokkurra bóta; þetta eru fimm midi-lög. OG SVO ER HÚN LÍKA LJÓT! Ég mæli eindregið með því að fólk heimsæki þessa síðu ef það veit ekkert um barokk og vill halda því þannig.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 03:28





Dramer

Sjaldan eða aldrei hef ég verið jafnþakklát fyrir skipunina "undo" og áðan. Þá var ég búin, með blóði, svita og tárum, að kreista fram tvær blaðsíður af áðurnefndri tónlistarsöguritgerð. Ætlaði svo að hefja nýja málsgrein með stóru A-i, en varð svo illa fótaskortur á lyklaborðinu að í staðinn fyrir að ýta á shift og a, ýtti ég á control og a. En eins og allir vita framkallar það skipunina "select all". Nú gætuð þið hugsað sem svo: "Hvað er druslan hún Sigrún að agnúast yfir þessu, þetta er góð og gegn skipun sem kemur oft að prýðilegum notum!" Ekki ætla ég að véfengja það, og hefði þetta í rauninni ekki komið að sök EF ég hefði ekki í einhverju augnabliksbrjálæði og örvæntingu ýtt á backspace, kannski til að reyna að bæta upp fyrir þessi þó saklausu mistök. Vildi þá ekki betur til en svo að allar tvær blaðsíðurnar hurfu eins og dögg fyrir sólu. Nokkur andartök var ég í öngum mínum og vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera; margra klukkutíma vinna öll fyrir bí. En þá kom upp í mér Ráðagóða-Sigrún, sem með uppáfinningasemi sinni og ráðkænsku leitaði uppi í hugskoti sínu minningu um töfratakka, sem lagar allt sem úrskeiðis fer. Og viti menn, þarna var hann, dulbúinn sem lítilfjörleg blá og beygluð ör. Ég trylltist auðvitað að fögnuði og létti sem aldrei fyrr. Er liggur við í sæluvímu ennþá.

Og hvað kennir þessi litla en jafnframt stóráhugaverða saga okkur svo? Jú, hún kennir okkur það að í staðinn fyrir að vera heima alla helgina og þykjast vera að læra ætti ég kannski frekar að fara út og þykjast eiga mér líf. Þá hefði ég allavega eitthvað til að blogga um annað en það sem mögulega hefðu getað orðið hrakfarir mínar á ævintýraengjum ritvinnsluforritanna.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 00:41



7.3.04


you suddenly find you got nothing to fear...

Jæja, nú er síðan orðin eins og bleik og væmin og kjánaleg og framast er unnt (og kommentakerfið líka); þá get ég farið að lesa 50 blaðsíður í hobbitanum og skrifa helvíska ritgerðina. Og æfa mig í tvo tíma. Þetta verður allt í lagi, svefn er hvorteðer ofmetið fyrirbæri.

Svo hef ég líka tekið ákvörðun um að gerast ljóshærð. ...Ó sjitt. SJITT. Nú skil ég allt. Það er engin tilviljun að ég eyddi heilum degi í að gera síðuna mína bleika. Það á ekki eftir að koma mér á óvart þegar ég vakna í fyrramálið með brjóst stærri en höfuðið á mér, tveggja metra langar lappir, bláan augnskugga lengst upp á enni og frosið bros. Ég er augljóslega að breytast í barbí. SJITT.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 20:25





Kvöl og pína

Það er alveg einstaklega merkilegt hvað stórskemmtileg bók eins og Hobbitinn getur orðið óáhugaverð þegar maður er að fara í próf úr henni daginn eftir og á eftir að lesa hundrað blaðsíður.

Það sem er líka merkilegt er hvað barokk getur verið fráhrindandi og lítið spennandi þegar maður þarf að skila fjögurra til fimm blaðsíðna ritgerð þar sem svara á spurningum á borð við "hvernig barokk tónlist tengist okkar eigin samtíma þjóðfélagi, hvort hún á erindi og hvaða þýðingu það hefur að reyna að nálgast "réttan" flutning með upprunalegum hljóðfærum og túlkun" og ótalmörgum fleirum. Mig langar ekkert að velta mér upp úr þessu akkúrat núna.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 13:13



2.3.04


Galdurinn er að geta brosað

Nú væri upplagt fyrir mig að vera bölsýn, fúl og leiðinleg. Lífið er nefnilega ekki alltaf auðvelt. En í staðinn ætla ég að gleðjast yfir því að ég á næstum bráðum afmæli. Gerið svo vel að fara að plana afmælisgjafirnar mínar og hvernig þið ætlið að gleðja mig á ógleymanlegan hátt.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 03:05



1.3.04


Magn versus gæði

Hey, smá svona könnun. Svarist í kommentakerfinu. Blogga meira og vanda sig minna (má þá búast við hækkandi sýrustigi... eða sko, lækkandi, eða sko lækkandi pH-gildi. Vottever þetta verður allavega súrt) eða blogga bara endrum og sinnum og vanda sig meira? -Þó það komi ekkert endilega til með að hækka standardinn á blogginu, en jæja. Ef enginn svarar veit ég ekki hvað ég geri alveg. Hætti held ég bara þessu rugli.
|

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 19:27





Þetta er færsla gærdagsins, netið dó. Ég ætla ekki að lesa hana yfir því þá freistast ég til að breyta henni. Eftir stendur innsýn í hugarheim stúlku sem hefur ekki sofið frekar lengi.

Um hverfulleika hlutanna

Ég mundi allt í einu eftir því að mig langar ógeðslega mikið að lesa bók sem heitir Coraline. Hún er eftir Neil Gaiman. Reyndar langar mig bara til þess að lesa bækur yfirhöfuð. Helst einhverja aðra en Hobbitann, sem helgast aðallega af því að jógúrtið mitt sprakk á hann og núna eru síðustu 50 blaðsíðurnar klístraðar saman og skelfilega illa lyktandi.

Ég mundi líka allt í einu eftir því að ég þarf að skrifa ræðu fyrir morgundaginn. Já. Hvað langar mig nú að vera þegar ég verð stór? Ég veit bara hvernig húsið mitt á að vera. Ég ætla að eiga heima á tveimur stöðum. Ég ætla að kaupa gamla aðalbókasafnið í Þingholtsstræti og eiga þar heima. Ég ætla að eiga ógeðslega mikið af drasli og fötum og hljóðfærum og bókum, og ég vona að það sé reimt þarna. Það væri ógeðslega mikið stuð, því þá gæti ég alltaf fengið einhvern til þess að gista bara með mér og við höfum það huggulegt með draugunum. Ég hef nefnilega heyrt að draugar séu ágætir ef maður er ekki einn í húsinu. Þessi einhver má gjarnan vera frekar fríður sýnum og ýmsum fleiri mannkostum búinn, sem við förum ekki nánar út í hér. Svo ef enginn býður sig fram til að veita mér og draugunum félagsskap á nóttunni, þá sef ég bara í íbúðinni. Þessi tiltekna íbúð er staðsett miðsvæðis. Ég ætla ekki að skilgreina miðsvæðis nánar. Hún er svona temmilega stór, en það besta við hana er að hún er nánast galtóm. Bara hljómflutningstæki og flygill. Helst hvítur, svo ég geti verið eins og Richard Clayderman. Það er svo ansi góður gaur. Svo þarf ekkert eldhús, því ég ætla bara að drekka te. Ég ætla aldrei að fara í klippingu, og ég ætla aldrei að sofa. Og ef ég þarf að pissa, þá pissa ég bara út um gluggann, í gegnum trekt eða eitthvað. Eða þá að ég hleyp upp í stóru, hvítu draslhöllina mína og pissa þar. Þar verður klósett með glærri setu með drasli í. Nei annars, það er ógeðslegt. Eins og fólk ætti nú þegar að hafa áttað sig á, þá verður í þessari íbúð stöðugt partí. OG YKKUR ER ÖLLUM BOÐIÐ!

Þessi færsla var í boði KLÓSETTSETUSÍÐUNNAR.

p.s. öppdeit á færsluna þann 18. febrúar: Núna er pepsímax á bragðið eins og hnetusmjör. Ég er farin að halda að þetta snúist meira um duttlunga bragðlauka minna en raunverulegt bragð pepsísins.

p.p.s. ef einhver veit hvernig maður á að komast að því með hvaða leitarniðurstöðum fólk hefur komið inn á síðuna manns myndi ég verða mjög þakklát ef sá hinn sami segði mér það. Ég hef oft séð fólk vera að monta sig af því að einhver hafi komið inn á síðuna hans sem leitaði að einhverju algerlega ótengdu síðunni á einhverri leitarvél... mér finnst ég eiga heimtingu á að vita svona líka.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 18:33

maystar maystar maystar designs | maystar designs |