[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


22.2.04


Vottever

Eða eftir franskri miðaldasögu... það breytir því ekki að allir deyja á harmþrunginn hátt.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 18:12



21.2.04


Ástardauði

Ég var alvarlega að hugsa um að hætta við að blogga, fólki gæti þótt frekar sorglegt að vera heima bloggandi á laugardagskvöldi, og þarafleiðandi myndi það álykta að ég væri frekar sorgleg. Sem ég er kannski, en bara á svona... ljúfsáran fallegan hátt. Eða þannig. En svo ákvað ég að standa fast á mínu, blogga bara þegar andinn kæmi yfir mig, sama hversu sorgleg tímasetningin væri. Ég meina... sumir drekka til að gleyma; ég blogga til að gleyma. (Og enn aðrir drekka til að gleyma og blogga svo um það. Til að gleyma. Því þeir gleymdu ekki þegar þeir drukku. Og jú, þetta meikar víst sens.)

Ætli einhverjum nema mér finnist fyndið að gera barnateiknimynd eftir Wagner-óperu sem endar á því að svona nokkurn veginn allir deyja úr ástarsorg eða einhverjum öðrum hryllingi? Og gefa hana svo með pylsupökkum í Hagkaup? En þetta er verið að horfa á á hæðinni fyrir ofan mig, og hefur það hérmeð hlotið nafnið "Tristan og ísöld". Yndislegt að eiga svona menningarlega fjölskyldu.

Og já, ég fattaði þegar ég var að fara að pósta þessu að bloggið mitt heitir Liebestod, sem er einmitt arían sem "Ísöld" syngur með Tristan dauðan í fanginu í lokin á títtnefndri Wagner-óperu. Ég hef eiginlega aldrei pælt í þessu, og aldrei hefði mig órað fyrir því að þetta blogg myndi verða vettvangur fyrir umræðu um ástardauða, Tristan og Isolde eða Wagner-óperur yfirhöfuð. Mér hefur greinilega verið ætlað þetta í lengri tíma. Já, örlögin láta svo sannarlega ekki að sér hæða.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 20:51



19.2.04


Leikrit

Inn í stofu O í gamla skóla gengur óskilgreint hrúgald með bauga niður á bringu. Í stofunni eru fyrir misjafnlega fersk ungmenni á 17. ári. Einhver glöggur ber kennsl á hrúgaldið og æpir.
Glöggur: "Sigrún!"
Hrúgald: "Hrrmmfsmpm."
Glöggur: "Hey, Sigrún, bíddu, hvar varstu eiginlega í gær?"
Hrúgald: "Já ég, ég var bara í ruglinu."
Glöggur: "Já já."
Skyndilega er hurðinni hrundið upp og inn stormar skikkjuklæddur maður. Augun í honum glansa og hann er nokkuð vitfirringslegur til hársins. Hann muldrar eitthvað óskiljanlegt niður í bringuna á sér.
Ungmennin missa sig öll sem eitt í fagnaðarvímu.
Eitt þeirra skýst út og kemur til baka með naut í bandi. Tuddanum er slátrað hið snarasta og allir maka blóðinu á sig og dansa tryllingslega.
TJALDIÐ

Boðskapurinn er auðsjáanlega sá að a) það er siðferðislega rangt að hafa próf í fyrsta tíma á morgun úr eðlisfræðikaflanum sem ég skil ekki og b) Míþradýrkun er alveg málið.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 23:44





Ég er eiginlega sammála Skorra, djöfull er þetta orðið leiðinlegt, endalausar búkþarfir sem þetta er farið að snúast um. Ef ég væri ekki svona helvíti upptekin af sjálfri mér væri ég löngu hætt að lesa bloggið mitt.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 01:25





Hárið á mér er beyglað.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 01:25





Teið sem ég drakk áðan var á bragðið eins og páskaegg. Bragðlaukarnir í mér eru eitthvað bilaðir sem þýðir að ég er greinilega að fá hálsbólgu. Áður en ég fékk síðast hálsbólgu var nefnilega myglubragð af öllu sem ég borðaði.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 01:24



18.2.04


Pepsi max er eins og eitur á bragðið.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:12



14.2.04


Tippi, tippi, tippi tippi tippi...

Þessi Topaz-mynd klikkaði alveg, ég náði aldrei að setja mig almennilega inn í hana því ég ruglaði alltaf öllum körlunum saman. Það var af því að þeir voru allir með sömu hárgreiðsluna. Nema stóri rauðhærði krullhærði gaurinn sem hét Hernandez.

Ég er núna að þykjast passa, en í rauninni er ég bara í tölvunni meðan herbergið mitt öskrar TAKTU TIL Í MÉR, námsbækurnar öskra LESIÐ MIG og börnin öskra SIGRÚN ER EKKI ALLT Í LAGI AÐ VIÐ SULLUÐUM SMÁ, VIÐ ERUM NEFNILEGA AÐ BÚA TIL SUNDLAUG!

En það er allt í lagi, deginum mínum er bjargað. Það gerði hún Svana. Þetta er að öllum líkindum óáhugaverðasta síða sem ég hef séð á öllu internetinu. Í þessu samhengi er rétt að minnast á heimasíðu Ingibjargar en hún er sú allrasúrasta, eins og ég hef sennilega sagt öllum sem ég þekki. Ég ætla að giftast Ingibjörgu.

Og ef það er eitthvað í heiminum sem mætti teljast fyndið, þá er það að heita Tippi.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:50





Barnið mitt á að heita Naddoddur, eins og víkingurinn.

Hvað skyldi komast mikið fyrir í meðal-maga? Áðan drakk ég 800 millilítra af vatni í tveimur sopum, og mér leið svona nokkurn veginn eins og maginn í mér væri að fara að springa. Mig langaði geðveikt mikið að æla. En ég get ekki framkallað uppköst, svo ég dó í staðinn.

Nú ætla ég að fara að rotna yfir þremur Hitchcockmyndum í röð. Já mér er sama hvað þið segið, það er geðveikt hollt og uppbyggjandi. Og nei, ég þarf ekkert að læra eða æfa mig. Það er bara fyrir aumingja.

Sölvi: Vala, þú sökkar feitt. Þú tottar.
Vala: Ha, cunthead?
Sigrún: HAHAHAHAHAHAYASHAAH
Hildur: HAAAAA? HVAÐ SAGÐI HANN?
Sigrún: Sölvi sagði "Vala, þú sökkar feitt. Þú tottar" og Vala hélt að hann hefði sagt cunthead.
Hildur: Ha, cockhead?

Og já, man einhver hvað lagið heitir sem var einu sinni alltaf verið að spila á Rás 2 og var um stelpu sem átti pabba sem drap kærastann hennar eða eitthvað svoleiðis?

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 21:05



8.2.04


Systralag bleiku hauskúpunnar

Já mig langaði bara að minna á þáttinn okkar stallnanna á þriðjudaginn klukkan 17:10 á Útvarp Framtíðinni FM 88,5. Það verður fokkin hardkor helvíti.

Hvað sögðu þeir aftur um að ein mynd væri þúsund orð? Koma þessu aðeins uppá hærra plan.


Svo er ég þotin, verð að fara að þjóna mínum sanna herra Mammoni í Kringlunni. Þetta er harður húsbóndi.


|
sigrún ybbaði gogg klukkan 14:32



2.2.04


Rosa-legt

Mér varð litið út áðan og þá sá ég að tunglið skein óvenju skært. En ekki nóg með það. Það var fullkomlega kringlótt skýjahula kringum það. Var þá þarna á ferðinni rosabaugur sem þýðir að óveður er í aðsigi. Þegar ég hafði áttað mig á því hversu merkilegt fyrirbæri þetta væri hljóp ég inn og sótti myndavél. Kveikti á henni og hugðist smella af. En nei. Þá fór hún bara að væla og þóttist vera batteríislaus. HÚN VAR FJANDAKORNIÐ EKKERT BATTERÍISLAUS, lygatófan, ég var nýbúin að hlaða hana. Svo ég hljóp út um allt í frústrasjón og hugkvæmdist á endanum að setja batteríið í hleðslu. Það tók að sjálfsögðu óratíma að hlaða það, og eftir hálfa mínútu missti ég þolinmæðina og reif það út og henti í myndavélardrusluna. Svo hljóp ég út og ætlaði að taka mynd... þá fór hún auðvitað að grenja aftur, "battery low BÍP BÍP BÍP" batterí ló my aunt Fanny! Ég var að hlaða hana fjandinn hafi það! Svo ég lét batteríið aftur í hleðslu og drattaðist inn í eldhús, þar sem einhver málsverður átti að vera í gangi.


Kvöldstund í eldhúsinu Birkihlíð 40

Fjórar manneskjur; Margrét 9 að verða 10 ára, Magnús 5 ára og foreldrar þeirra, sitja að snæðingi við fábrotið hvítt eldhúsborð.

Táningssystirin Sigrún gengur inn og tekur sér sæti, heldur örg að sjá. Henni hefur mistekist að taka mynd af stórmerkilegu náttúruundri sem ber nánast aldrei fyrir sjónir, og tjáir fjölskyldumeðlimum gremju sína.
Pabbinn: Hahaha, ertu ROSA-fúl út af þessum ROSA-baug...
Sigrún: Hrmph.
Margrét: Hvort finnst ykkur betra á fiskinum, skottið eða búkurinn?
(Allir nema sumir hlæja.)
Margrét: Æ... sporðurinn eða búkurinn á þessu fyrirtæki ...fyrirbæri.
Magnús: (lemur í fetaostkrukku) Ef hann Skyrgámur væri hérna þá gæti hann brotið krukkuna í spað, því hann er svo skelfilegt naut!
Mamman: Eru ekki til meiri kartöflur, Tommi?
Margrét: Pabbi, hvar eru kartöflurnar?
Mamman: Tommeeeee!!!
Pabbinn: (við sjónvarpsskjáinn) Já já Ólafur, elsku karlinn minn, ert þú að reyna að halda því fram að þú hafir einhver völd? (lítur upp og sér illilegt augnaráð mömmu og Margrétar dynja á sér, dæsir): Einu sinni var það þannig að allir þögðu þunnu hljóði meðan húsbóndinn var að hlusta á fréttir. Núna er æpt og gólað á mann meðan maður reynir af veikum mætti að fylgjast með fréttunum!
Magnús: Ef þið opnið ekki ostinn brýt ég hann!
(drykklöng þögn, eilítið þrúgandi)
Margrét: Eru ekki allir í stuði?
Magnús: Með honum Guði! Hvort segið þið Guð eða Gvuð?
Mamman: Sigrún, sittu ekki eins og rækja!
Magnús: Heitir sonur hans ólafs Ragnars Grímsari?
Mamman: Uuu... neiii...
Magnús: Af hverju er hann þá Grímsson?
Mamman: (mæðulega) því að pabbi hans heitir Grímur.
Magnús: Af hverju ert þú ekki Konráðsson?
Margrét: Getum við haft hundaköku í afmælinu mínu?
Mamman: Nú vildirðu ekki Nóakroppsköku?
Margrét: Nei mig langar í svona köku með mynd af mér!
Sigrún: Mig langar ekkert að borða þig, Margrét.
Magnús: Mig langar það, hahhahahahahha.
Mamman: Hvað með að hafa Valsmerki? Heyrðu, er ekki Bernhöftsbakarí eitthvað svona Valsbakarí?
Pabbinn: Iss, það ætti nú að vera KR-bakarí, er ekki til eitthvað svoleiðis?
Mamman: Já nei, við viljum ekkert svoleiðis.
Pabbinn: Þér finnst gaman að vera leiðinleg við mig, er það ekki?
Magnús: MIG LANGAR Í FETAOST!!!
-Fjandinn er laus og blóðug átök í aðsigi. Sigrún þakkar pent fyrir sig og gengur út af sviðinu. -TJALDIÐ-


Götótt tóm

Nú, ég athuga hvernig batteríinu líður, og það reynist hafa hlaðið sig allmikið. Treð því aftur í vélina og hleyp út. Baugurinn hefur hjaðnað all-mikið, en ég reyni samt sem áður að taka mynd. Útkoman verður nokkurn veginn eins og ekkert, með gati á. Svona um það bil svona:

Leimó.

Ég var áðan að spila á píanóið mitt með næturpedalinn á, þar sem einhver nágrannahræðsla var í gangi. Þá datt mér í hug hvað það væri óhemju skemmtilegt að hafa svona fleiri pedala sem eru með einhverjum svona effektum, svona lúðrasveit og englakór (eins og í uppáhaldslaginu mínu Careless whisper). Nú gætu einhverjir sagt "En Sigrún, þá ættirðu bara að fá þér hljómborð góða mín" en ég mótmæli því alfarið. Það er ekkert góður hljómur í hljómborðum þegar maður spilar venjulega, eða það er a.m.k. á fæstum hljómborðum sannfærandi píanóhljóð. Svo finnast mér þau óþægileg. En þá allt í einu laust þrumu niður í huga minn. Hammond er auðvitað málið í dag. Og svo verð ég bara að fara að vinna í því að fá englakór og lúðrasveit til afnota, fínt að hafa svoleiðis í stofunni ef manni leiðist eitthvað, vantar selskap eða þarf að fá útrás fyrir þörfina fyrir að ráðskast óhóflega með aðra.

Svo minni ég á hörkugóða myndasíðu sem mun án efa vaxa og auka veg sinn næstu 30 dagana, en að þeim liðnum mun hún deyja án þess að ég muni nokkurn hlut eiga þar að máli, hún mun sumsé falla fyrir eigin hendi.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:23






|
sigrún ybbaði gogg klukkan 21:35

maystar maystar maystar designs | maystar designs |