[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


10.11.03


Nú ætla ég að útlista nokkra af fáum göllum mínum. Þetta mun auðvitað verða öllum lesendum reiðarslag, þið hélduð vísast öll að ég væri alfullkomin. En svo er nú aldeilis ekki, ónei.

Þar ber fyrst að nefna

-Skipulagsleysi með letitilhneigingum. Óáhugaverður löstur, svo ég ætla ekki að fjölyrða um hann. Það eina sem ég get sagt er að hann stjórnar lífi mínu.

-Þörf fyrir að vera að gera marga hluti í einu. Þetta helst í hendur við ofangreindan galla. Þetta gerir það að verkum að ég verð ofboðslega stressuð og kem nánast engu í verk.

-Óstundvísi. Þetta þarf ekki að tíunda nánar, allir sem eitthvað þekkja til mín hafa fengið að kenna á algjörlega óafsakanlegri óstundvísi minni, og misnotkun á tíma mínum og annarra. Oft er hægt að kenna öðrum fjölskyldumeðlimum um... en það er í raun engin huggun, bara sönnun þess að þetta er bæði krónískt og arfgengt.

-Ótrúlegur skortur á hugmyndaflugi. Það lýsir sér helst í því að þegar einhver segir við mig "Segðu mér nú eitthvað skemmtilegt Sigrún" "Hey, segðu mér brandara" "Segðu eitthvað fyndið" "Segðu mér sögu" eða eitthvað í þá veru, þá frýs ég og kem ekki upp orði. Sömuleiðis ef ég á að skrifa eitthvað eða segja frá eigin brjósti, þá fæ ég óteljandi afleitar hugmyndir. Í gær bað bróðir minn mig til dæmis um að segja sér sögu. Ég varð auðvitað alveg eins og kúkur og það endaði með því að ég gafst upp á sögunni sem ég hafði byrjað á um frosk sem bjó undir stól, og sofnaði. Og þegar ég sest við tölvuna og hugsa "Jæja, væri ekki gaman að blogga núna?" þá get ég það ekkert nema ég hafi tíma til að bíða vel og lengi eftir því að andinn komi yfir mig. Hins vegar get ég bullað endalaust ef mér er komið af stað. Ég er kannski ekki ein um þetta vandamál, en jæja.

-Kann ekki að fara að sofa. Þetta er slæmt. Þó ég viti að ég ætti, þyrfti, skyldi og mér bæri siðferðisleg skylda til að fara að sofa (sumsé allar núþálegu sagnirnar á einu bretti) þá er það ekki fyrr en ég þarf eldspýtur til að halda augunum opnum sem mér dettur í hug að ganga til hvílu.

Nú er ég farin að teygja mig í eldspýturnar... meira síðar.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 00:25

maystar maystar maystar designs | maystar designs |