[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


30.10.03


Some people say this town don't look good in snow
-You don't care, I know...

Rútur, þú sagðist vilja meira blogg. I'll give you blogg!

Allavega verður þetta á menningarlegu nótunum hjá mér núna... ég ætla að koma á framfæri meðmælum mínum með hinu og þessu.

ÉG MÆLI MEÐ:

-Kill Bill, eitursvöl mynd, en eiginlega sé ég ekki tilgang með að mæla með henni, því að það virðast allir vera búnir að sjá hana.

-Bókum eftir norska heimspekinginn Jostein Gaarder... Veröld Soffíu, Halló, er einhver heima, og Kapalgátan, allt ótrúlega góðar bækur. Það fyndnasta er að þegar sumar persónurnar í bókunum tala heyrir maður einhvern veginn norska málróminn í því sem þær segja. Æ, ég get ekki útskýrt það. En það er samt fyndið.

-Veðurstofumálrómnum sem Skorri notar þegar hann les upphátt. Og misvel-skiljanlegu en þó ávallt ofurfyndnu bröndurunum hans eins og "Sigrún, er einhver í skólanum sem heitir það sama og þú?" Eða "Til hvers að spila á píanó þegar það eru 5 ára krakkar í Ameríku sem geta ekki neppt nöppunum sínum, sem spila miklu betur en þú?" eða mitt persónulega uppáhald "Jæja, nú erum við komin að Leiðinlegufólkahlíð"... þegar við vorum komin að Mávahlíðinni þar sem Jósi á heima. Sumt er bara svo lítið fyndið að það fer hringinn og verður ógeðslega fyndið.

-Nú... svo er China Cat Sunflower gott lag með Grateful Dead. Ég nenni eiginlega ekki að tala meira um það vegna þess að ég er örugglega eina manneskjan af þeim sem ég þekki sem finnst það skemmtilegt. En jæja.

-Blues from a gun með gospelsveitinni Jesus and Mary chain. Fyllir mann óstöðvandi löngun til að strunsa um allt í leðurjakka með sígarettu í munnvikinu og töffarsvip á andlitinu. Púra röff töff attitude.

-Bítlunum eins og þeir leggja sig. Einkum og sér í lagi Revolver. Mikið hlakka ég til að heyra Let it be strípaða, þ.e. lausa við hljóðmúrs-hryðjuverk Phils Spector.

-að einhver kenni mér að spila djass og blús.

-grískri goðafræði -hvergi annars staðar finnurður sögur af körlum sem gleypa ástmeyjar sínar í flugulíki og fæða svo börnin, sem þær gengu með þegar þeir breyttu þeim í flugur, með því að höggva gat á hausinn á sér og luta þau svo stökkva út í fullum herklæðum og æpa svo undir tekur í fjöllunum, hundraðhenta risa og goðmögn sem eignast börn með systrum sínum og eru ekkert æst í að gangast við föðurhlutverkinu svo þau fá þær til að fela börnin í iðrum sínum, nú eða einfaldlega gleypa þau sjálfir, og æla þeim svo óvart alla leið til Delfí. -Ja, hvergi nema kannski í norrænu goðafræðinni, sem er óttalega keimlík hinni grísk/rómversku. SKRÝTIÐ

-aftur á móti mæli ég EKKI með því að ákveðnir sögukennarar sem byrja á H og enda á róbjartur semji aftur próf sem inniheludr bara spurningar um nákvæmlega þau atriði sem ég kann ekki.

-ég get heldur ekki mælt með því að sofa í 4 tíma nóttina áður en maður á að skrifa ritgerð í tíma um bókina sem er ástæðan fyrir því að maður sefur svona lítið.

-að hin annars prýðilega útvarpsstöð Skonrokk fari að spila aðeins fleiri lög en þau sirka 10-20 sem eru spiluð þar oft oft oft á dag. Og að Radíó Reykjavík sjái sóma sinn í því að spila tónlist sem er ekki nógu skemmtileg, Nickelback og eitthvða svona glamrock og einhvern 80's metal og eitthvað, og spili meira af skemmtilegri tónlist eins og þeir gerðu fyrst. Og svo ætla ég að biðja þá að rétt upp hönd sem finnst eitthvað líklegur til meiri áhlustunar þessi endalausi "Þinn bíll, þitt útvarp, skerðu helvítis kedlinguna á háls og kastaðu henni út í skurð ef hana langar ekki að hlusta á Slade og Guns'n Roses allan daginn, annars ertu bara ræfill, já heyrirðu það, við erum karlmenn við rokkum, andskotans drullukunturnar sem vilja bara hlusta á Bylgjuna og Létt 96,7 geta bara troðið hausunum upp í klofin á sér!"-vaðall. Þegar ég er stödd í bílnum með pabba og hef stillt á Radíó Reykjavík og ein þessara "þinn bíll þitt útvarp, láttu ekki stelpudrusluna ráða ferðinni" -auglýsinga hljóma er karl faðir minn yfirleitt ekki lengi að átta sig á því að hann hefur ennþá eitthvert vald yfir bílnum sínum -og skiptir umsvifalaust um stöð. Semm hann hefði annars örugglega ekki haft rænu á að gera. Látum vera hvort þetta er fyndið eður ei, en árangursríkar geta þessar auglýsingar ómögulega verið. Nema auðvitað að ætlunin sé að hrekja í burtu þá hugsanlegu hlustendur sem enn hafa snefil af virðingu fyirr sjálfum sér og náunganum, pólitískri rétthugsun og þroskuðu skoðskyni. Æ, voðalega predika ég.

-Að þið hættið að lesa þessa vitleysu, ef þið eruð þá ekki nú þegar löngu búin að gefast upp. Flettið frekar upp í biblíunni, Prédikaranum 3:1-3:8. Fallegra á ensku samt, og langflottast í laginu með Byrds; Turn! Turn! Turn! Unaður.

-Lay lady lay með Bob Dylan. Ótrúlega flott. "His clothes are dirty but his hands are clean... and you're the best thing that he's ever seen..." ó ég fæ gæsahúð.

-Ooog Velvet Underground, töffarar.

-Að einhver gefi mér fallega hljómsveitaboli. Mér finnst rokk end róll attitúd mitt ekki vera nógu sýnilegt. Ef ég eignast einhverja fagra rokkboli þarf ég kannski ekki að rífa allar gallabuxurnar mínar og fá mér mótorhjól og mæta full í skólann. Allir rokkarar sem ég þekki mæta alltaf fullir í skólann sko, alveg satt sko.

-That thing you do, prýðileg mynd, en það sem stendur algerlega upp úr eru dansarnir. Allar stelpurnar dansa alltaf alveg eins, alltaf. Það er æðislegt. Og svo er trommarinn svo svalur. Hmm, kannski þarf ég ekki að mæta full í skólann, fæ mér bara stór svört gleraugu og verð með þau alltaf, alltaf. Reyndar eyðileggst myndin í endann og leysist upp í væmna ælu, en það er svo sem ekki við öðru að búast af Hollywood.

-Top secret!, nokkuð hallærisleg mynd frá 1984 með Val Kilmer í aðalhlutverki sem er ótrúlega fyndin. Ekki svona úhúhú-hlæjum-geðveikt-mikið-að-þessari-mynd-því-hún-er-asnaleg-mynd, heldur á hún að vera fyndin, og tekst það virkilega vel. Þegar ég sá hana lá ég í krampakippum og gólaði af hlátri. Virkilega.

-Talandi um góðar myndir; sex orð: MONTY PYTHON AND THE HOLY GRAIL. Ein af fáum, MJÖG fáum myndum sem ég hef getað horft á oft með stuttu millibili. En það stendur einmitt til að kynna sér fleiri af verkum þessara kolrugluð Breta, og megið þið, kæru lesendur búast við miklum og löngum lofræðum um þau á næstunni.

-Því að fara út í snjóinn og fá sér prik og skrifa það sem mann langar. Voða gott fyrir sálina, kannski ekki eins fyrir líkamann þegar það er svona ógeðslega kalt. Fór út með mínum elskulega fimm ára bróður Magnúsi og við skrifuðum allskonar yfirlýsingar eins og "Spiderman var hér" "Bakman" "Roben" og "Kiþi" í snjóinn, okkur báðum til ómældrar kátínu, þangað til ég fann ekki lengur fyrir tánum á mér og lungun voru orðin að klaka. Svo fór ég eitthvað að benda drengnum á hvað himinninn væri fallegur, skýin voru sko svona með rákum í og himinninn voða blár, og þá segir hann "Guð hefur eitthvað verið að teikna í skýin með prikinu sínu. Honum þykir það örugglega skemmtilegt. Hann má líka heldur ekkert teikna í snjóinn. En VIÐ megum það, he, he." Systkini mín skemmta mér stundum mjög mikið. Eins og þegar Margrét trúði mér fyrir þessu, alveg upp úr þurru, hún hefur verið svona 7 ára þá "Ég hlakka svo til þegar ég verð mamma, þá get ég alltaf verið í silkinærbuxum!" Til þess dags hef ég ennþá ekki hugmynd um hvað fékk hana til þess að segja þetta.

Jæja þetta er komið gott. Allltaf tekst mér að fara út í öfgar. Jú eitt að lokum. Hvert er málið með Arnold Schwartzenegger? Hann býður sig fram sem ríkisstjóri Kaliforníu og allir kjósa sniðuga vöðvabúntið, Gereyðandann. Nema hvað, allt í einu kviknar í öllum skógunum. Nú má sjá skógarelda sem hið fullkomna tækifæri hetju á við Schwartzenegger til að sanna sig. En hvað gerir governatorinn? ANDSKOTANN EKKI NEITT. Eða eins og hann pápi sagði, svona eru þessir vöðvabelgir, ónýtir til allra verka.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 21:51



28.10.03


Jæja, nú hef ég fengið nóg. Kommentakerfið mitt hefur ekki verið að standa sig, lýgur hægri vinstri um að það séu ósköpin öll af kommentum, þegar þau eru kannski bara þrjú. Þetta er náttúrulega ekki hægt að láta viðgangast. Svo nú hef ég gengið til liðs við HaloScan, og ætla ég rétt að vona að það standi undir kröfum mínum um sannsögli. Nú ætla ég að fara upp í rúm og vera veik.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:29



27.10.03


Í tilefni af feministavikunni sem nú stendur yfir ætla ég að deila með ykkur draumi sem ég hef átt mér síðan ég var svona tíu ára. Þá var Bítlaþáttum Ingólfs Margeirssonar útvarpað í Ríkisútvarpinu og fannst mér svo mikið til koma að ég ákvað með sjálfri mér að ég skyldi nú einhvern tímann stofna stelpubítla. Hljómsveit af álíka snilldargráðu og The Beatles, bara eingöngu skipaða stelpum. Svo nú ætla ég að biðja þær stúlkur sem hafa áhuga á samstarfi af þessum toga að hafa samband við mig sem fyrst. Saman látum við drauminn verða að veruleika! Áfram stelpur! Látum feðraveldið ekki traðka okkur niður í svaðið! ... eða eitthvað.

Annars hef ég gleðifregnir að færa. Eitthvert barn sem býr í næsta húsi við mig er byrjað að æfa á trompet. Þeir sem hafa áhuga á að hlýða á þetta undrabarn framkalla íðilfagra og ljúfa tóna mega gjarnan koma í heimsókn.

Ég var að enda við að horfa á vægast sagt hryllilegan þátt um franska stelpu með lystarstol og lotugræðgi. Ég ætla ekki einu sinni að tala um það hversu ömurlegt þetta er... maður veltir því fyrir sér hvers konar samfélag það er sem fær fólk til þess að steypa sér út í svona... það er ekkert annað orð yfir það, helvíti.

Bara af eigin raun þekki ég það að þegar ég fletti í gegnum svona móðinsblöð, instyle, marie claire, cosmo, hvað þetta allt heitir, verð ég hálf miður mín yfir því að vera ekki svona ógurlega fullkomin, þó ég viti að þetta er allt meira og minna plat... að þessi módel og leikkonur eru fótósjopperaðar fram og til baka, plastfylltar og með förðunar-snyrti- og húðfræðinga, stílista og einkaþjálfara á hverjum fingri. Samt sem áður sannfærist ég um að ég muni aldrei höndla lífshamingjuna nema ég sé með rifbeinin standandi út í loftið, lengst undir kjörþyngd, og að það sé gjörsamlega vonlaust að nokkur karlmaður muni einhvern tímann sýna mér minnsta áhuga ef ég festi ekki umsvifalaust kaup á nýjasta undraelexírnum frá einhverju X stórfyrirtæki. Ekki það að þeir hafi neinn áhuga á peningunum mínum, neinei, þeir vilja bara gera mig glaða. Svo er sýnt hvernig "plus-size" konur geta sko alveg verið sexý, já ótrúlegt en satt þekkist það víst að konur yfir fimmtíu kílóum séu ánægðar með sig... og þetta bull um að nú sé ekkert í tísku lengur að vera grindhoraður, neineinei, nú er í tísku að vera "curvy," það er að vera grindhoraður með stór brjóst. Jess, loksins get ég fengið mér sílíkon!

Ó, ég gæti talað endalaust um þetta... hvað við erum alla ævi að leita að einhverjum hlutum til að flækja lífið... Það sem ég er allavega að reyna að sýna fram á er að fyrst að ég, sem tel mig nokkuð vel upplýsta um blekkinguna og klámvæðinguna og sölumennskuna og græðgina sem býr að baki þessum blöðum, læt þessar ímyndir allar hafa svona mikil áhrif á mig, hvað þá með viðkvæmari sálir og þá sem eru móttækilegri fyrir svona áróðri? Er þá eitthvað skrýtið að unglingar um allan heim séu að stráfalla fyrir átröskunarsjúkdómum, annað hvert ungmenni með sjálfsmyndina í molum og 11 ára stelpur að klæða sig eins og vændiskonur? ...og samt, það er víst oftast vel gefið fólk sem verður átröskunum að bráð. Það er vísast enginn óhultur.

EN þar sem mér er umhugað um fátt meira en vellíðan og kátínu lesenda, og vil fátt síður en að þið yfirgefið þessa síðu með sorg í sinni og þyngsli í hjartanu yfir vandamálum þessa heims ætla ég að enda þessa færslu á söngljóði. Því blés andinn mér skyndilega í brjóst í dag er ég var á göngu um undraríki sölnaðra laufanna og andaði að mér ilminum sem haustvindarnir blésu mér að nösum. Það hlaut nafnið Gálaust hvískur og er enginn vafi í mínum huga um að það muni umsvifalaust færa mér heimsfrægð. Raunar hafa einhverjar efasemdaraddir bent á hversu ískyggilega vel ljóðið mitt passi við eitthvert lag frá níunda áratugnum með einhverjum homma og vini hans. En það er auðvitað einskær tilviljun. Fæst orð bera líklega minnsta ábyrgð, svo hér kemur það:

Tíminn læknar ei
gálaust hvískur
góðra vina
hjartanu og sál
fáviska er ljúf
Huggun engin sanni í
sársauki' er allt sem finnst

Ég aldrei dansa aftur mun
sekir fætur fylgja' ei takti
þó að þykjast auðvelt sé
ég veit þú ert ei flón

Átti' að vita betur en að svíkja vin
eyða gefnum tækifærum
svo ég mun aldrei aftur stíga dans
sem steig ég dans við þi-i-hig...

(hér hvísluðu skáldgyðjurnar að mér að færi vel á að skjóta inn í sólói, gjarnan á eitthvert blásturhljóðfæri)


Og þannig var nú það.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 23:17



26.10.03


Ef mér fyndist ég ekki þurfa að vera svona sniðug og gáfuleg í hvert skipti sem ég blogga myndi ég gera það miklu oftar.

Mig langar að tileinka færslu dagsins í dag þeim ólánsömu ungmennum sem eiga við húðvandamál að stríða. Þetta er liður í viðleitni minni til þess að gera mig mannlegri í augum aðdáenda minna og sýna meðaumkun og hógværð þeim sem eru ekki svo heppnir að vera fullkomnir eins og ég.

Óðurinn til húðlæknisins
(syngist við lag úr Jesus Christ Superstar sem ég man ekki hvað heitir)

Taktu þessar bólur frá mér
ég æski ei lengur
gulra rauðra grænna sulla
á enni mínu

ég er bálreið
ekki eins kát og ég var áður

ég er uppnumin
hvar er panoxylið?
smurt ofaná ótal bólur
bólubólur

eiturgufur
brenna andlit mitt
salicylsýra... til hvers lífið?
Ó, ég þoli ekki meir!

(Nú má leika hádramatískt gítarsóló, er leiðir yfir í laglínu svipaða þeirri er sungin er við ljóð Páls Ísólfssonar, Brennið þið vitar... ef vill)

ALLEGRO SPIRITOSO, FURIOSO

Hverfið þið kýli
Andstyggðin saurgar
ásjónu mína
speglarnir hata mig

Hverfið þið kýli
hvers á ég að gjalda?
öldurótið dregur mig til sín
allt er glatað


Ég er farin að hallast að því að kveðskapur minn henti betur til söngs en... nokkurs annars. Passið ykkur, Megas og Bob Dylan.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 16:55



17.10.03


Í gær var árshátíð. Það var gaman. Sumir voru ölvaðri en aðrir, fáeinir jafnvel ofurölvi. En það var samt gaman, ógeðslegt mikið af einhverju fólki úr MH og Kvennó og eitthvað sem maður kannaðist ekki við. En það var bara gaman. Jei, gaman.

Á miðvikudaginn var ég svo í sakleysi mínu í píanótíma, í mesta basli með að ná rétta áslættinum í ungverskum drykkjusöng sem ég er að æfa. Þá stormar inn myndatökumaður frá Sjónvarpinu og krefst þess að fá að festa mig á filmu og sýna í kvöldfréttunum. Nú veit ég ekki alveg afhverju það var ég sem varð fyrir valinu sem bakgrunnsmyndefni í frétt um menntamálaráðuneytið og/eða eitthvað sem því tengist, en ég giska samt á að þessi maður hafi einhvers staðar frétt af fegurð minni og hæfileikum. Hvað um það. Ég birtist sumsé í áttafréttunum sama kvöld, ægifögur að venju.
Daginn eftir mætti ég í skólann, reiðubúin að baða mig í frægðarljóma og aðdáun samnemenda, tók með mér besta pennann minn, bjóst náttúrulega við því að fólk færi að heimta eiginhandaráritanir og svona sko. En neinei. Eini maðurinn sem hafði horft á fréttirnar var stærðfræðikennarinn knái Auðun. Svo nú er ég bara mjög ósátt við alla, að horfa ekki á fréttirnar, FÓLK! Þið vitið aldrei nema ég geti verið í þeim!
Ég sé mig eiginlega knúna til að vitna í fyrirmynd mína og guðmóður í listinni;
"Nú flýgur hún hátt
en hvernig kemst hún niður
Það nær engri átt
Það reyndist vera satt
að hún fór upp of hratt"
Já, kæru vinir, það sannast á dæmunum að frægðin er fallvölt og ekki fyrir hvern sem er að höndla.

Og að öðru. Nú ætla ég að standa fyrir samkeppni. Hún snýst um það að finna nafn á síðuna mína. Það kæmi þá í stað núverandi yfirskriftarinnar "Slata is the friend, but non-Slata is the enemy". Skilyrðin eru þau að a)það innihaldi ekki íslenska stafi og b)sé lýsandi fyrir mig eða síðuna og/eða sé ofsalega sniðugt og viðeigandi eitthvað. Fyrir utan að skipa sérlegan heiðurssess í hjarta mér mun sigurvegarinn hljóta vegleg verðlaun. Ekki það að það séu ekki nægileg verðlaun í sjálfu sér að skipa heiðurssess í hjarta mér.

Mér finnst eitt skrýtið. Bara eitt sko. Allt hitt er ekkert skrýtið.
Þegar karlar eru myndarlegir, eru þeir vel útlítandi, aðlaðandi, vel af guði gerðir á hinu ytra byrði, eitthvað í þá veru. En þegar konur eru myndarlegar, þá þýðir það að þær geti gert smákökur sem eru ekki vondar og skúrað. Þetta er svona svipað og gleðimaður er eitthvað allt annað en gleðikona. Skrýtið.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 19:03



12.10.03


Nú ætla ég aðeins að segja frá draumförum mínum. Ég segi þær nefnilega ekki alveg sléttar.
Síðasta þriðjudagskvöld hlýt ég að hafa borðað eitthvað ógurlega skrýtið fyrir svefninn, því mig dreymdi svo mikla herjans vitleysu að það eru varla fordæmi fyrir því.
Ég var semsagt stödd í skólaferðalagi með bekknum mínum. Og það var ekkert venjulegt skólaferðalag, ónei við vorum stödd á efstu hæð í blokk. Þarna með í för var Agnar nokkur Burgess, collega í Skólafélaginu í MR, gaur með skeggrönd á hökunni og svitabönd á úlnliðunum. Hann hámaði þarna í sig í sífellu Maltabita, og uppfræddi okkur þess á milli um muninn sem væri á ljósum, dökkum og rispuðum Maltabitum. Nú veit ég ekki alveg hvað rispaðir Maltabitar eru, en jæja, ég ræð því ekki hvað mig dreymir.
Svo vorum við búin að vera í þessari ágætu blokkaríbúð í góða stund, þegar einhver brá sér á klósettið, og varð fyrir árás, af svampi. Já, góðir hálsar, svampur stökk á bringuna á honum með offorsi. Nú, hann féll í einhvers konar dá, varð eins og svefngengill eða einhver vera ekki þessa heims. Svo drapst hann. En svampurinn lét ekki þar við sitja, heldur tók hann til við að ráðast á alla sem þarna voru og smám saman voru allir liggjandi þarna eins og hráviði, dauðir eða deyjandi.
En nú dregur til tíðinda, lesendur góðir. Því ég var ekki óhult fyrir þessum óskapnaði. Nei, svamphelvítið stökk líka á bringuna á mér. Þá fannst Hildi mál til komið að taka til sinna ráða og fór og náði í Kolla og einhvern annan strák, ég man ekki hvern. Þeir áttu að binda enda á þessa hringavitleysu með því að bera fólkið út. Og með þessari töfralausn hennar Hildar lýkur draumnum.
Ef einhver treystir sér til að ráða í þennan draum tæki ég því fegins hendi, ég er nefnilega hætt að taka mark á stjörnuspánni minni síðan hún sagði mér að í dag væri fullkominn dagur til að þvo bílinn minn.
En þangað til næst...

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:58



6.10.03


Ég er geðveikt sár út í sjálfa mig fyrir að eiga við einbeitingarvandamál að stríða. Þegar ég á að læra, sérstaklega þegar ég á að læra fyrir próf, leysist það alltaf upp í einhverja vitleysu og ég fer að borða ís eða yrkja eða baka súkkulaðiköku, þetta er ekki alveg nógu sniðugt. Hefur einhver lausn á þessum vanda? Er einhver sem langar að selja mér smá sjálfsstjórn eða skipulagsgáfu?
Á morgun er ég að fara í jarðfræðipróf, og mig langar það ekki. Mér finnst leiðinlegt að fara í próf. Oj. Ég legg fæð á próf. Þau eru ekki sniðug. Rétt upp hönd sem eru sammála mér.
Í morgun var líka efnafræðipróf, sem ég eyddi, já EYDDI, því verri tímaeyðslu hef ég sjaldan vitað... helginni í að læra fyrir. En mér gekk samt ágætlega. Og eins gott, annars hefði ég gert eitthvað óskaplega slæmt.
En svo ég líti nú aðeins á björtu hliðarnar... í dag kom kona frá Kjörís í heimsókn til mín og gaf mér fullt af ís. Það var afþví að í Ben & Jerry's ísnum sem ég át um daginn var glerbrot. Stærðarinnar glerbrot sem hefði hæglega getað a) farið niður vélindað, skorið gat á magann á mér b) farið í gegnum nefholið upp í heila og gert mig að heiladauðum veslingi, c) festststs í botnlanganum og valdið mér vítiskvölum það sem eftir er ævi minnar, eða d) drepið mig. Möguleikarnir eru endalausir. Öhm... svo ég haldi nú áfram. Móðir mín ástkær, sem er umhugað um vellíðan mína og öryggi framar öllu, fór með glerbrotið og restina af ísnum (sem var nú reyndar bara nokkuð góður... chocolate chip cookie dough, svíkur ekki sko, nema þegar það eru glerbrot) aftur í Hagkaup, þar sem hann var keyptur, og rellaði svoldið í fólkinu þar. Ég bjóst nú ekkert við því að það góða fólk myndi eitthvað aðhafast í málinu, á tímabili var ég jafnvel farin að halda að það hafi ekki verið nein tilviljun að þetta glerbrot hafi lent í ísnum mínum. EN viti minn, bankar þá ekki uppá þessi margumrædda Kjöríss-kona, með fangið fullt af ís, Ben & Jerry's-ísum ýmiss konar, Heimaísum og frostpinnum og ég veit ekki hvað og hvað og hvað. Þannig að næstu dagar, sem áttu að einkennast af ofurmannlegu heilsulíferni, gulrótaáti og Müllersæfingum í Nauthólsvíkinni, sýnast mér því miður verða að fara í eina allsherjar ísorgíu. Æ, æ. Ísorgía, flott orð. Minnir mig á "ístruflanir", orð sem Afa á Stöð 2 varð tíðrætt um í þá gömlu góðu þegar maður vaknaði fyrir allar aldir til að missa ekki af því þegar hann söng "Góðan dag, góðan dag, glens og grín það er mitt fag..." og framhaldið kunna allir sem eitthvað kunna á annað borð. Næstum jafn gott orð er "fosringsorgle", orð sem Auðun stærðfræðikennari fann upp þegar mig grunar að hann hafi ætlað að skrifa "ferningsreglan" á töfluna.
En nú ætla ég að hætta þessu helvítis rugli, það les það enginn hvort eð er, og fleygja mér út á ævintýraengi plagíóklass, hraunlýja og granófýrs. Það er miklu skemmtilegra.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:46



2.10.03


Ég gleymdi auðvitað að segja að um síðustu helgi var ákaflega vel heppnuð busaferð farin í félagsheimili Ungmennafélagsins Drengs í Kjós. Þar var mikið fjör, og ég, ásamt fleirum stóð fyrir sýningum á Monty Python and the Holy Grail. Reyndar hló enginn nema þeir sem höfðu séð myndina áður, en samt sem áður var fólk mjög áhugasamt. Gott hjá því.

Og hún Hildur er komin með blogg á blogspot, dugleg stelpa Hildur!!!



|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:07





SLATA - THE CAPITAL OF POETRY

Nú hefur andinn í brjósti mér fyrirskipað blogg. Þessi andi gengur undir nafninu Jóhannes, og að venju er honum tileinkað ljóðahornið.

Það sem ber hæst liðinna atburða er vitaskuld dansæfingin góða sem var haldin um daginn á Nösu. Þetta, ásamt villtu fyrirpartýinu í Stúdentakjallaranum, og fyrir-fyrir-partýinu á Ægissíðunni hjá henni Tinnu var hin besta skemmtun og verður vonandi endurtekin þann sextánda á árshátíð skólafélagsins.

Á morgun er svo MR-ví dagurinn, það verður stuð.

Ég hef komist að því að tveir í viðbót í bekknum mínum blogga, það er voða gaman og sniðugt. Ég ætla að gerast svo djörf að linka á þau meira að segja.

Svo ætlar hún Hildur að fá sér blogspotsíðu, í staðinn fyrir pentagon-ruslið sem alltaf er niðri. Ekkert nema gott um það að segja.

Þá er komið að ljóðahorninu. Þema dagsins er biturleiki.


ég veit ekkert allt
andskotinn
slepptu þessu þá bara



Fleira var það ekki að sinni.



|
sigrún ybbaði gogg klukkan 17:34

maystar maystar maystar designs | maystar designs |