[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


27.2.03


Jæja, ef ég breytist ekki óforvarendis í tölvu-palla einhvern tímann í nótt, þá verð ég að gefa upp vonina um að þessi síða verði einhvern tímann flott. Í staðinn verð ég að halda í þá veiku von að hún verði skemmtileg. Reyndar verð ég að viðurkenna að það skipti ofboðslega litlu máli vegna þess að þeir sem eiga eftir að skoða þessa síðu eru sennilega teljandi á fingrum annarrar handar.
Í dag fór ég í heimsókn í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar var margt spennandi að sjá. En það sem stóð algerlega upp úr var vitneskjan sem ég hlaut um að raungreinastofan hefði yfir að ráða geislavirkum kubb. Af hverju hefur enginn sagt mér þetta fyrr? Ef ég hefði vitað þetta hefði ég getað sparað mér töluvert hugarvíl við að velta vöngum yfir því hvaða menntaskóla ég skyldi stefna á. En fyrst MH er eini menntaskólinn sem á geislavirkan kubb þá leikur ekki minnsti vafi á því að leiðin liggur þráðbeint þangað.
Eitt verð ég að viðurkenna. Núna ætti ég að vera að læra dönsku. Vandamálið er bara það að nenna mín til þess er af skornum skammti. Mjög skornum. Skornum við nögl meira að segja. Ætli Edda Snorradóttir taki því sem gildri afsökun að hafa verið að blogga? ehm... fyrst að gsm-símar eru í hennar augum leikföng þá leyfi ég mér að efast um það...

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 22:09





Já. Þetta er svolítið skemmtilegt. Það er danska aftur á móti ekki. Hana ætti að banna. EN það ætti hins vegar ekki að banna íslenska stafi, eins og fólki finnst greinilega alveg bráðnauðsynlegt (sbr. hér aðeins fyrir neðan... thad stingur óneitanlega dálítið í augun á svona rammíslenskri síðu). Alveg er það dæmigert hvernig manni hverfur öll andagift þegar maður loksins tækifæri til að tjá fyrir alþjóð vonir sínar og væntingar, vonbrigði og almenn leiðindi. Jæja, ætli hún komi ekki einhvern tíman, blessuð. Á meðan beðið er eftir henni hyggst ég fá útrás fyrir gremju mína á saklausri slaghörpunni. Ef að líkum lætur varir sú þolraun í hálfa fjórðu klukkustund, en samt sem áður spái ég því að ég endist u.þ.b. þrjátíu mínútur. Kannski detta mér á meðan á því stendur einhverjar aðferðir í hug til þess að setja krækjur einhvers staðar norðaustan við textann. Að lokum ætla ég að benda þeim á það sem kannski héldu eitthvað annað að það er alls ekki sniðugt að sitja ofboðslega skakkur í tölvustól meðan maður hefur síma í vasanum sínum. Þá er nefnilega alveg gefið að hann detti út og bíði e.t.v varanlegan skaða. Og það er ekki sniðugt ef maður er dálítið háður honum.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 19:37





Mikið er nú æðislegt að vera bloggari. Aldrei hefði mig grunað að það gæti verið svona ævintýralega skemmtilegt að hljóta þessa upphefð.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 19:36

maystar maystar maystar designs | maystar designs |