[byrja upp á nýtt]
---SLATA - KONA EÐUR GOÐSÖGN?--- .


30.6.05
Andlaust

Ég ætla til Utah og ég ætla að gerast mormóni og giftast þessum:
1. Harry Belafonte.
-Jump in the line, sko.

2. Wilson Simonal.
-Þ.e. þessi inni í bílnum, ekki ofan á honum. Ég myndi aldrei giftast tómati.

3. Prince.
-Þó ekki væri nema vegna þess að menn með ælæner eru ekki á hverju strái.

4. Prins Valiant.
-Góður og göfugur. Ógurlega sætur líka.

5. Beck.
-Hann samdi lag um mig, Nicotine and Gravy. Hann kallar mig alltaf Gravy, mér finnst það geðveikt sætt. Verður örugglega frekar sár ef ég hef hann ekki með á þessum lista.

6. Árni.
-Hann vill mig líka, það sést. Á því hvernig hann heldur dauðahaldi í sköflunginn á mér.

7. Torbjörn Bruntland og Svein Berge.
-Svo eitthvað mikil krútt og ambient og norskir eitthvað.

8. Mahmoud Ahmadinejad.
-Ég sé hann samt einhvern veginn ekki sætta sig við mjög marga aðra eiginmenn. En ég hef sjaldan vitað annan eins prins.

9. Willy Wonka.
-Æ, pant bara... eiga hann.
Myndina af Árna, og fleiri af heimkynnum hans á Kúbu má sjá hér. Ég fór þangað daginn sem ég varð sautján ára. Daginn eftir það skrifaði ég eftirfarandi:
Í fyrradag voru skórnir mínir útataðir í bjór, í dag eru þeir allir úti í rommi og gulllituðum sandi.

Í lobbýinu er manngerð frumskógarstemning og tveir stórir litskrúðugir fuglar sem róla sér sem óðir væru en hafa þó ekki enn fengist til að ræða við mig. Sem er kannski allt í lagi, ég kann ekki spænsku.

Hótelið býður þó upp á spænskutíma - sem og dans- og kokkteilblöndunartíma. Jógatíma sótti ég í morgun, glennti mig þar íklædd bikiníi og einum hinna alræmdu Æ-gleymdirðu-að-klæða-þig-í-morgun-kjóla. Það, ásamt slappri tónlist (Írsk þjóðlagatónlist, "Fields of barley and rhye, rivers flowing down to Camelot" ...þetta á bara ekki við jóga), portúgalanum José og dömunum hressu frá Chile, gerði þetta að ógleymanlegri lífsreynslu. Eða svona.

Hér eru líka fjölmargar húshljómsveitir, þeirra nýtur til dæmis í ríkum mæli mjög lífsglöð en ótrúlega asnaleg miðaldra íslensk kona, sem stígur í sífellu og við hvert tækifæri mjög vafasöm salsaspor og hlær hátt og asnalega.

Á göngu okkar um nágrennið fundum við tré sem svignaði undan fræbelgjum - sem virtust áhugaverðir, svo við létum pabba hoppa eftir þeim. Þeir reyndust hin bestu hljóðfæri og verður smyglað til landsins, ef ungu herramennirnir [bróðir minn og Tómas 3 ára sem var með í för] brjóta þau ekki fyrst við skylmingar og krókódílaveiðar.

Utan nokkurra gamalla bíla, og Fiesta Cola, sem ég taldi mömmu á að kaupa í stað Coca Cola light - vegna þess að hið síðarnefnda væri ekki í anda byltingarinnar - er menning innfæddra okkur enn með öllu ókunn.
Ég finn hér brjótast út ókunnugar og skringilegar hvatir, ég hef hingað til ekki lagt í vana minn að fara með stripl mitt í sólarlöndum á internetið. En einu sinni verður allt fyrst í meistarans garði. Sjaldan vægir barnið sem vitið ber í þverpokum. Meyjum er best að brýna að kvöldi, og allt það.

Svo er þetta sætt. Litli víkingurinn (Wickie á þýsku) er bestur, þá sérstaklega lagið. Eitthvað annað en klígjunostalgían sem ég fæ þegar ég heyri Golden brown með Stranglers. Ég á ekki einu sinni minningar tengdar því. Þetta er bara eitthvað djúpsálarlegt. Ég er svo þroskuð sál. En samt svo þjökuð.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 23:48



15.6.05
Gormstrókskvörn

Í hádegishléinu mínu í dag fékk ég smörrebröd á Jómfrúnni því pabbi á afmæli. Ég þurfti líka að kaupa mér 85% súkkulaði, og gerði það. Ég borðaði mikið súkkulaði í vinnunni en á samt þrjá mola eftir. Mamma keypti líka ótrúlega mikið af fílasúkkulaði í fríhöfninni. Það gerir mig hamingjusama, klisjukennt sem það kann að vera. Síðan fékk ég að þýða, það var gaman. Ég bjó til orðið "gormstrókskvörn".

Svo labbaði ég heim úr vinnunni berfætt og Ógeðslega Kúl. Gekk út í bakgarð þegar heim var komið, ennþá berfætt, og tíndi jarðarber sem vaxa þar, og borðaði þau og þau voru ótrúlega sæt og góð. Og nú er Aldís að koma og við ætlum að brugga og reykja vindla.

Ég held að þetta sumar verði gott.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 20:19



6.6.05
Stuð og stemning, guð og gremlins

Ég elska sumarið, því þá upplifi ég svo margar hamingjustundir þar sem ég er að hjóla og veðrið er fallegt og tónlistin í eyrunum á mér er falleg. Þá verður allt svo fallegt. Svo á ég líka svo fallega og góða vini.

Svo núna ætla ég að gera getraun eins og er svo móðins. Hún er mjög sjálfhverf. En það er víst mjög móðins líka. Hef ég heyrt.

Spurt er:

Hvað eigum við sameiginlegt, ég og Douglas Calvin?
Mér dettur þrennt í hug. En ykkur krakkar? Ha?

Vísbending


Hér er gaman. Þessi hefur dvalið einhverja mánuði í hræðilegi eða ógurlegi. Eða þá að hún er eins og systkini mín og breytist í ófreskju þegar hún borðar nammi. Þessi er yndisfögur og hangir nú á vegg mínum.

Æ, já.

|
sigrún ybbaði gogg klukkan 23:05

maystar maystar maystar designs | maystar designs |